GUGALUN HÚSIÐ, EFTIR PETER ZUMTHOR




Gamall bóndabær í svissnesku Ölpunum, sem í aldaraðir hafði verið í eigu sömu bændafjölskyldunnar, var kominn í hendur nýrra eigenda úr sömu fjölskyldu. Þessir afkomendur sem bjuggu í borg, báðu svissneska arkitektinn Peter Zumthor árið 1990, að færa húsið í nútímahorf til þess að þau gætu eytt sumarleyfunum þar, en án þess þó "að glata töfrum þess".

Hliðstæð ævi hússins og fjölskyldunnar
Gugalun þýðir "horft á tunglið". Það er nafn hússins, sem byggt var í hlíð sem snýr í norðurátt í Grison héraðinu í Sviss, af Alpabændum. Löng ævi þess, frá 1709, hefur einkennst af kyrrlátu lífi kynslóðanna. Nú lifa niðjar þessarar fjölskyldu mjög ólíku lífi. Hraði daglegs lífs er afleiðing þess að þeir bæði vinna og búa í borg. En þrátt fyrir að líf þeirra sé svo ólíkt reynslu ættfeðra þeirra, þá vildi nútímafjölskyldan halda í sögu fjölskyldunnar og hússins þegar þau eyða þar sumarleyfinu sínu. Það er, að búa í sátt við minningarnar sem búa í húsinu, töfra sem Zumthor var beðinn um að varðveita.
Lífið í svissneska fylkinu einkenndist af einfaldleika sem enn er til staðar í Gugalun húsinu. Aðgangur að húsinu er áfram sami bratti stutti göngustígurinn sem bændurnir gengu upp og niður. Byggingargerðin er dæmigerð fyrir hefðbundin hús í Grison héraðinu, að prjóna saman þunga og fyrirferðamikla viðarbjálka. Húsið sjálft er hitað eftir rómverskri tækni, þ.e. miðstöðin er hituð með viði og streymi loftsins hitar stórann steinofn. Allir þessir eiginleikar eru venjur sem minna á sjálfsaga Spartverja og sem gefa til kynna virðingu á gildum óháð tíð og tíma. Húsbyggjendurnir útskýrðu fyrir arkitektinum, í stuttu máli, að þessi tilfinning fyrir tímanum endurspeglaðist í því að fjölskyldan varð að kveikja upp í eldinum og að bíða eftir að vatnið yrði heitt.

Töfrar tillögunnar
Tillaga Zumthor að breytingunum virðir öll þessi atriði. Sett eru undir sama koparþakið, aðeins þau atriði sem eftir nútímaviðmiðunum þótti ábótavant - nútíma eldhús, baðherbergi og salerni, tvö herbergi með stærri gluggum, og viðbótar viðarbrennslumiðstöð. Þessum vistarverum var bætt við gamla húsið. Arkitektinn kaus að setja hlutina hlið við hlið frekar en að fella þá inn í heildina, en það er einmitt samkvæmt virðingunni sem hann bar til upprunalegra einkenna hússins og vinnuaðferða. Það kæmi svo í ljós, tíu árum síðar, hvort markmiðinu hefði verið náð þegar sólin væri búin að dekkja nýju viðarbjálkana sem prjónað hafði verið við þá gömlu.
Þar að auki eru herbergi hússins fléttuð saman. Jarðhæðin var hugsuð þannig að herbergin fylgdu hvort öðru; stofan (gömul), samhliða gangur við stigann (nýr) og eldhúsið (nýtt).Gamla eldhúsið var með lítið sögulegt gildi og í slæmu ásigkomulagi, og varð þ.a.l. staðurinn þar sem breytingarnar áttu sér stað. Stækkunin sem var nauðsynleg, var gerð á bakhlið hússins og inn í hlíðina. Hliðin sem snéri að dalnum og þar sem stofan naut útsýnis, fékk þannig að halda sínu upprunalega fyrirkomulagi. Á fyrstu hæðina var bætt við tveimur herbergjum, baðherbergi og lesherbergi, öll samantengd en aðskilin með rennihurðum.
Sterk tilfinning er fyrir tímanum í þessu húsi; í nákvæmum smáatriðunum hvernig gamalt og nýtt er spilað saman, og í áþreifanleika á hlutunum - í beinum tengslum við náttúruna og við húsagerðina sem vekur upp minninguna um fyrri lífshætti íbúanna. Áþreifanleiki, sem Zumthor tókst að miðla, þökk sé næmi hans og fyrri menntun hans sem húsgagna-og innréttingasmiður.
Á sama hátt og afkomendur fá aftur tilfinninguna fyrir lífsháttum forfeðra sinna, þá hefur Zumthor tekist að byggja við húsið sem með tímanum verður eðlilegur hlutur af landslaginu og sögu staðarins, jafn friðsælt eins og að horfa á tunglið.

Myndatexti
1. Peter Zumthor (f. 1943). (ljósmynd: Hélène Binet)
2. Mynd af Gugalun húsinu og fjölskyldu frá 1927
3. Það kæmi í ljós, tíu árum síðar, hvort markmiðinu hefði verið náð þegar sólin væri búin að dekkja nýju viðarbjálkana sem prjónað hafði verið við þá gömlu. (ljósmynd: Henry Pierre Schultz)
4. Grunnteikning af jarðhæð
5. Grunnteikning af fyrstu hæð
6. Séð inn í stofuna með steinofninum, í gamla hlutanum. (ljósmynd: Shigeo Ogawa)
7. Lesherbergi á fyrstu hæð. (ljósmynd: Shigeo Ogawa)