VANNA VENTURI-HÚSIÐ Í PHILADELPHÍU, EFTIR ROBERT VENTURI




Árið 1962 bað frú Vanna Venturi son sinn, Robert Venturi, þá ungan og upprennandi arkitekt, að hanna fyrir sig hús í Chestnut Hill-hverfinu í Philadelphíu í Bandaríkjunum. Húsið var eitt af fyrstu byggingum Venturis en það skaut honum fljótt upp á stjörnuhimininn og veitti honum alþjóðlega viðurkenningu. Síðar stofnaði hann arkitektastofuna, VSBA, með konunni sinni, Denise Scott Brown, og hafa þau saman hannað byggingar eins og viðbygginguna við National Gallery í London. Í samtímahúsagerð hefur Vanna Venturi-húsið margsinnis verið notað til skírskotunnar sem sést best í því að heimildaskrá þess hefur að geyma á fimmta þúsund heimilda. Þær lýsa húsinu sem kveikju heitrar umræðu um uppsprettu húsagerðar í lok síðustu aldar.

Í tengslum við greinaflokkinn um Sögur húsanna, settum við okkur í samband við Robert Venturi til þess að grafast fyrir um tengsl arkitektsins við húsbyggjandann, í hans tilfelli tengsl hans við móður sína meðan á hönnun hússins stóð. Skömmu síðar barst okkur tölvupóstur frá Almannatengslum arkitektastofunnar þess efnis að Venturi kunni að meta þá leið sem Sögur húsanna kjósa að fara til að nálgast viðfangsefnið og að hann væri að skrifa texta tileinkaðan greinaflokknum. Rausnarlegt framlag hans endurspeglaði viðhorf hans til húsagerðarinnar þar sem Venturi hefur ávallt verið þeirrar skoðunar að íhuga þurfi smekk manna og reynslu til jafns við skipulag innra rýmis hússins. Innihalds- og tilfinningaríkt bréf hans er birt hér að neðan.

Robert Venturi: "Vanna Venturi-húsið".
Bréf skrifað fyrir Sögur húsanna.

"Móðir mín var einstök manneskja sem ólst upp í fátækri innflytjendafjölskyldu í Philadelphíu og gat ekki lokið gagnfræðaskólanum vegna þess að fjölskylda hennar hafði ekki efni á kaupa vetrarkápu á hana. En hún hafði yndislegan kennara sem hét Miss Caroll sem dáði hana, hélt áfram að kenna henni og var móður minni lærimeistari og fyrirmynd. Móðir mín vann fyrir fjórum dollurum á viku við John Wanamaker stórverslunina en síðar fyrir innanhússhönnuð þar sem áhugi hennar á listum og húsagerðarlist gat vaxið og þroskast. Sem ung kona varð hún jafnaðarflokksmanneskja - kaus alltaf Norman Thomas þegar hann bauð sig fram sem forsetaframbjóðandi - og varð að lokum sérfræðingur í verkum Bernard Shaw og í samtökum enskra sósíalista (Fabian Society). Þegar ég var ungur sáum við oft leikrit eftir Bernard Shaw sem voru hluti breytilegrar dagskrár bæjarleikhússins í Hedgerow. Hún var friðarsinni og varð meðlimur kvekarasamtakanna (Society of Friends), þ.e. gerðist kvekari - ásamt föður mínum. Bæði hún og faðir minn nutu byggingarlistar og vöktu áhuga minn á húsagerð þegar ég var ungur að árum - og heimili okkar var klætt fallegum húsgögnum sem mér er enn mjög annt um - og hafði að geyma margar bækur um byggingarlist, bókmenntir, mannkynssögu, heimsspeki. (Faðir minn, sem var ávaxtakaupmaður, gat heldur ekki lokið gagnfræðaskólanum vegna fátæktar í fjölskyldunni en hann átti marga vini sem voru arkitektar - einn þeirra hannaði verslun fyrir hann og annar vöruskemmu - báðir voru frægir á sínum tíma).
Hús móður minnar var hannað fyrir ekkju sem komin var á efri árin, með svefnherbergi hennar á jarðhæð, með engan bílskúr vegna þess að hún keyrði ekki og fyrir þónustustúlku og möguleika á að hafa hjúkrunarkonu - og það átti líka að vera vel sæmandi fallegu húsgögnunum hennar sem ég ólst upp við. Fyrir utan þessi atriði gerði hún engar kröfur til arkitektsins, sonar síns, varðandi skipulag hússins eða fegurð þess- hún sýndi yndislegt traust.
Ég hef skrifað um húsið sem nútímalegt en líka sem hús haft til skírskotunar/er táknrænt - sem hús kennt við hið almenna/helgimyndir - sem keppist ekki við að vera frumleg húsagerð, heldur góð. Það tengist hugmyndum mínum frá þessum tíma varðandi margbrotið eðli og mótsagnir, um aðlögun sína að sérstökum staðháttum Chestnut Hill-úthverfisins, um fagurfræðlega legu hlutanna sem ég lærði frá Villa Savoye, um lögun gaflhlaðsþríhyrningsþaks þess sem átti rætur sínar að rekja til Low House í Bristol á Rhode Island, um klofinn gaflhlaðsþríhyrninginn sem mátti rekja til efri gaflhlaðsþríhyrnings Blendheim-hallarinnar og tvískiptingar-uppbyggingin sem sótt var í Girasole-húsið í Róm og sem varðaði ákveðin hagnýt atriði notuð til skrauts.
En þetta er nútímalegt hús; móðir mín naut þess að búa í því og líka að taka á móti þeim fjölmörgu ungu arkitektum sem heimsóttu það!"

Myndatexti:
a. Robert Venturi (f. 1925) arkitekt. (ljósmyndari: J.T.Miller)
b. Frú Vanna Venturi fyrir framan húsið sitt sem virðist hefðbundið við fyrstu sýn. (Ljósmyndari: Rollin LaFrance)
c+d+e+f. Þrátt fyrir að húsið hafi verið notað sem dæmi í bók Venturis, Margbrotið eðli og mótsagnir (1966), lagði núverandi eigandi áherslu á það við okkur að ljósið byggi yfir einstökum eiginleikum fyrir rýmið þegar það brystist í gegnum snjólögin við gluggann á efri hæðinni og niður í stofuna. (Ljósmyndari: Rollin LaFrance)
g. Stofan prýddi falleg húsgögn móður Venturis jafnframt sem stiginn og arininn keppast um hver segi til um miðju hússins. (Ljósmyndari: Rollin LaFrance)
h+i. Rýmið innanhúss, eins og það kemur fram á grunnmyndunum, er flókið og afmyndað í lögun og í tengslum sín á milli.