HÚS DICKS Í TROYES (FRAKKLANDI), EFTIR JEAN NOUVEL




Það er hægt að rekja eitt af fyrstu verkefnunum sem Jean Nouvel fékk til ársins 1977 þegar kvensjúkdómalæknir og ákafur unnandi byggingarlistar bað hann um að hanna hús fyrir sig. Svo mikill var áhugi læknisins að hann setti strax upp það skilyrði að góð samvinna yrði á milli þeirra á meðan á öllu hönnunarferlinu stæði. Þessi ósk fékk mjög góðar móttökur frá unga arkitektinum og gaf byr undir tilfinningaríkar samræður við fjölskylduna um hvernig húsið þeirra myndi verða.
Þó að verkefnið yrði til upp úr samræðunum og allir væru ánægðir þá fékk húsið ekki byggingarleyfi. Stjórnvöld staðarins stimpluðu verkefnið sem stælingu sem aðlagaði sig ekki að umhverfinu. En þrátt fyrir að arkitektinn þyrfti að gefa eftir og gera nauðsynlegar breytingar skildi hann ekki við tækifærið ónotað heldur notfærði hann sér það til að draga upp endalega ímynd hússins.

Að hafa “gagnrýna byggingarlist” að settu markmiði
Jean Nouvel hafði verið sannfærður um, allt frá stúdentsárunum, að ekki væri hægt að skapa byggingarlist án þess að fylgja eigin málstað. Á því tímabili hafði hann upplifað maí ’68 stúdentaóeirðirnar og óspektirnar í Listaháskólanum sem brutust út vegna kröfu nemendanna um að endurskipuleggja þyrfti arkitektafagið, hvetja þyrfti til samræðna við notandann og að stuðla að lýðræðislegu ferli við vinnslu hvers verkefnis. Nemendurnir drógu það í efa að hægt væri að segja til um hvers konar byggingarlist ætti að skapa og í hvað hún ætti að breytast. Afstaða Nouvels var skýr. Það þyrfti að leita eftir frelsi innan arkitektafagsins og aðhyllast viðhorf efasemdarinnar - að efast, hlusta á og notfæra sér mótsagnir og einkenni aðstæðna og hvers staðar fyrir sig.
Til þess að ná fram þessu langþráða frelsi gat gagnrýnin afstaða Nouvels ekki takmarkað sig við kenningafræðilega texta né heldur pappírsarkitektúr. Honum var nauðsynlegt að styðja rök sín með því að tengja þau við viðfangsefni byggingarlistarinnar og borgarinnar og jafnvel að byrja á því að vilja breyta meirihluta laganna sem stjórnuðu byggingariðnaðinum. Hann var einn af stofnendum Marz 1976-hreyfingarinnar og Arkitektasambandsins sama ár. Einnig skipulagði hann óformlega arkitektasamkeppni um endurbætur í Les Halles-hverfinu og um leið reyndi hann að koma í veg fyrir sölu og niðurrif gömlu húsanna þar í hverfi. Nouvel og félagar hans gáfu út stefnuyfirlýsingar, tóku götuna yfirráðum nokkrum sinnum, börðust gegn eðli fagsins sem eins konar hlutafélagi og gegn þeim lóðareglugerðum sem hljóðuðu upp á tæknilega útfærslu lausna fremur en mannúðarstefnu. Að síðustu, harðfylgin starfsemi Nouvels hefur ávallt beinst gegn úreltum reglugerðum.

Bygging hússins
Þetta var staðan þegar Dick læknir bað Jean Nouvel um að hanna húsið sitt.
Lóðin fyrir fyrirhugað hús var í Troyes, miðaldarborg í Champagne-héraðinu suðaustur af París. Borgin er annars þekktur ferðamannastaður þar sem miðbærinn auðkennist af þröngum göngugötum. Sitthvoru megin við þær standa hús sem einkennast af sýnilegum línum burðargrindanna á framhliðum sínum. Auk þessa er Troyes enn ánefnd helgistaður myndskreyttra glugga, list sem prýðir hinar tíu kirkjur miðborgarinnar, og viðheldur orðstí sínum um að vernda elstu opinberu byggingarnar sem Frakkland státar af. Víngerð er líka enn við lýði.
Samvinnan milli Dicks læknis og Jean Nouvel við hönnun hússins var mjög mikilvæg. Það tók langar síðdegisstundir að skilgreina dvalarrýmin og að þau myndu aðlaga sig sem best að ólíkum aðilum fjölskyldunnar. Þeir komu sér saman um að aðalrými hússins myndu hafa nokkrar hvelfingar, þó með því fylgja eðli verklýsingarinnar. Afleiðingin var sú að stóra stofan var staðsett undir hvítmálaðri hvelfingu. Einnig var gert ráð fyrir stóru leiksvæði fyrir börnin þar sem hvert og eitt þeirra ætti sér litla bogadregna útbyggingu sem hefði það hlutverk að vera gott svefnherbergi fyllt öryggistilfinningu.
Þegar teikningarnar voru lagðar inn hjá byggingarmálanefnd borgarinnar var umsækjanda synjað um byggingarleyfi með þeim ummælum að hönnunin væri “stæling af bísantískri byggingarlist” og væri þar af leiðandi ekki í samhengi við miðaldarborgina Troyes. Þessi úrskurður var niðurbrjótandi. Hann dæmdi húsið um að gerast ekki hluti af staðnum, stað sem á hinn bóginn, samkvæmt Nouvel “var sambland af ósamstæðum eftirlíkingum af síðari tíma svæðisbundnum byggingum og stórmörkuðum, eplagrænum að lit.”
Arkitektinn áfrýaði dómnum til borgarráðs, skrifaði formanni héraðsdóms og jafnvel byggingamálaráðherra. Þetta hafði engin áhrif. Uppgefinn, og þrátt fyrir að honum hafi tekist að viðhalda innri rými hússins óbreyttu, átti hann engra annarra kosta völ en að gera þær breytingar og viðbætur sem hann hafði verið beðinn um gera við framhliðarnar.
Þrátt fyrir allt vildi Nouvel ekki eyðileggja þetta tækifæri til þess að gera menningartengda stöðu sína sterkari. Þegar arkitektinn sótti um nýtt byggingarleyfi, lagði hann fram svo stuttaralegar teikningar að þær villtu um fyrir embættismanninum. Hann samþykkti teikningarnar og stuttu síðar hófust framkvæmdir við að byggja húsið. Nouvel notfærði sér atburðinn til þess að skapa endanlega ímynd hússins og ákvað að mynda för á útveggina eftir ritskoðunina. Hann minntist þessa þáttar um eyðileggingu með því að þræða línu með rauðum múrsteini inn í vegginn sem segði til um þær breytingar sem höfðu verið neyddar upp á útveggi hússins.
Auk þess að vera fágað og einfalt einbýlishús, ber hús Dicks vitni um persónuleg viðhorf arkitektsins og verkkaupans um að forðast hvers konar vangaveltur um stíla. Í stað þess verður það að byggingarlist sem á rætur sínar að rekja til samræðna og menningartengdra gilda.

Myndir: Nouvel Atelier
Myndatexti:
a. “Hlutverk arkitekta er að skapa menningartengda skilgreiningu á hinu byggða umhverfi.” Jean Nouvel (f. 1945). (ljósmyndari: Gaston).
b. Hús Dicks (Troyes, 1978) var fyrsta verkefnið sem Nouvel kallaði “gagnrýnin byggingarlist”.
c+d. Ákafar samræður arkitektsins og læknisins leiddu til verkefnis sem allir aðilar voru fullsáttir við. Þrátt fyrir það, fengu teikningarnar ekki nauðsynlegt byggingarleyfi.
e. Samræðurnar við verkkaupann lögðu línurnar að dvalarrýmunum sem aðlöguðu sig að ólíkum meðlimum fjölskyldunnar.
f+g+h. Þó að arkitektinn hafi þurft að gefa eftir og leggja fram umbeðnar breytingar notfærði hann sér atburðinn til þess skapa endanlega ímynd hússins og merkti för eftir ritskoðunina á útveggina.
i. Lína af rauðum múrsteini skilur eftir sig spor ritskoðunarinnar og úrelta reglugerð sem hún hefur að geyma.