VILLA BOLLEN Í HOLLAND, EFTIR ONE ARCHITECTURE




Það gerðist rétt fyrir rúmum 20 árum að Bollen fjölskyldan eignaðist land í grennd við borgina Eindhoven. Hún vissi nákvæmlega hvað hún vildi, að fylgja þáverandi tísku í Hollandi og byggja franska sveitavillu. Með tímanum urðu fjölskyldumeðlimirnir hinsvegar sífellt óánægðari með húsið og ákváðu jafnvel að sofa úti undir berum himni. Þeir gerðu sér fljótlega ljóst að þarfir þeirra snérust ekki um stíleinkenni heldur miklu frekar um hús sem stuðlaði að sterku sambandi við náttúruna.

Stílfært hús
Húsið, sem Bollen-fjölskyldan hafði byggt, uppfyllti öll atriði franskrar sveitavillu: hliðar þess voru byggðar úr rauðum múrsteini sem síðan var hvítmálaður, litlar gluggarúður og ris undir hellulögðu þakinu. Til þess að koma í veg fyrir að nágrannar myndu reisa sér hús og þannig lýta landslagið og afmynda þessa ákaft þráðu myndbyggingu, hóf fjölskyldan að kaupa aðliggjandi lóðir. Loks hafði garðurinn stækkað svo gríðarlega að hann sameinaðist friðlandi ekki langt frá. Þegar hér var komið sögu, fékk fjölskyldan landslagshönnuð til þess að skipuleggja garðinn. Hann lék sér að ólíkum eiginleikum lóðarinnar - aflíðandi halla og sandbornum jarðveginum - og skipaði nokkrar fjarvíddarmyndir með því að láta frjálslegan og reglubundin gróður skiptast á þannig að hann breiddi úr sér eins og blævængur. Þetta gerði hann án þess þó að húsið yrði á nokkurn hátt tekið til viðmiðunar. Næstum því ómeðvitað, eyddi fjölskyldan sífellt meiri tíma út í náttúrunni um leið og hún fann fyrir innilokunarkennd í húsinu.
Fjölskyldan ákvað að húsið þarfnaðist viðbyggingar sem myndi opna út í garð. Árið 1997, höfðu þau samband við hollensku architektastofuna, One Architecture. Hugsaður sem hvetjandi máttur fyrir hönnunarferlið, útbjó stofan bækling með ólíkum húsum eftir virta samtíma arkitekta - sem nú eru margir kunnir lesendum Sögu húsanna - eins og Rem Koolhaas, Frank Gehry, Ben van Berkel og Alvaro Siza. Bæklingurinn innihélt líka sögulegar persónur allt frá klassískum Andrea Palladio til Nútíma arkitektsins Mies van der Rohe. Bollen-fjölskyldan kenndi sig ekki við neitt húsanna en kunni þó að meta Farnsworth-húsið, það virtist draga til sín allt umhverfið. Hún vildi einmitt læra af slíkri húsagerð.

Saga Farnsworth-hússins
Árið 1945, nálgaðist læknirinn, Edith Farnsworth, Nútímalistasafnið í New York og óskaði eftir ráðleggingum um arkitekt sem gæti hannað fyrir hana bústað þar sem hún myndi eyða helgum og frítíma sínum. Safnið mælti með Frank Lloyd Wright, Le Corbusier og Mies van der Rohe og valdi hún þann síðastnefnda. Frú Farnsworth átti 40.000 fermetra land í Plano-héraðinu við Chicago sem hallaði niður að Fox-ánni. Það einkenndist af flatlendi og engjum fyrir utan nokkra litla trjálundi og tvo gríðarstóra sykurhlyni. Annað veigamikið atriði sem taka þurfti mið af var að vegna nálægðar sinnar við ána flæddi oft yfir landareignina.
Mies van der Rohe hannaði gler-kassa sem var 23.5 x 8.5 metra að stærð, og lá hann á fljótandi 1.5 metra upphækkaðri strálgrind á átta stálsúlum. Til þess að virða trén var húsinu gætilega komið fyrir milli hlynanna og langhliðum þess snúið í vestur-austur átt. Stálgrindin var máluð hvít og staðsett beint fyrir framan glerframhliðina þannig að tilfinningin fyrir náttúrunni og óblíðum árstíðarbreytingunum var upplifuð beint í æð. Með þessu tókst honum að gera náttúruna hluta að mannlegu umhverfinu jafnfætis húsinu sjálfu. Í þessu opna rými, birtist eldhúsið eins og hvert annað húsgagn - eitthvað sem er þekkt fyrirbæri nú á dögum - og naut þannig jafn fallegs útsýnis jafnt og stofan. Þrátt fyrir þessa "fyrirmyndar" lausn, tók frú Farnsworth Mies fyrir rétt og kærði hann fyrir að hafa farið framúr áætluðum byggingarkostnaði auk þess sem hún sýndi fram á efiðleikana við að búa í húsinu. Réttarhöldin stóðu í þrjú ár en með þeim endalokum að hún tapaði málinu.
Frá þessum sjónarhóli er viss mótsögn að Bollen-fjölskyldan hafi valið hús sem upphaflegi húsbyggjandinn hafi álitið ómannúðlegt. Á þessum fimmtíu árum sem höfðu liðið hafði hlutverkinu verið snúið við, nú er litið á Farnsworth-húsið sem eftirsóknarvert vegna sterkra tengsla sinna við náttúruna. Matthijs Bouw, meðstofnandi arkitektastofunnar One Architecture, endurtúlkaði Farnsworth húsið sem og notfærði sér einstök atriði úr húsagerð Mies: opið skipulag, frágang við þakbrúnina, gerði eftirlíkingu af krómaðri krosslagaðri súlu úr þýska skálanum á heimssýningunni í Barcelona (1929). Viðbyggingin var jafnvel hækkuð upp um hálfann metra svo að stórt umfang opna skipulagsins leyfði auganu að sneiða í gegnum húsið og þvert yfir allan garðinn og landslagið. Rennihurðir úr ryðfríu stáli á framhliðum hússins skapa þau áhrif að viðbyggingin virðist vera skáli út í náttúrunni þar sem ilmur trjánna berst inn og íbúarnir finna hlýja goluna strjúka við vanga þeirra.
Er hægt að tala um ákveðinn stíl? Þegar horft er á húsið, verður manni ljóst að arkitektúrinn hverfur, það sem skiptir máli er nálægin við náttúruna.

Ljósmyndir: One Architecture
Myndir
a. Matthijs Bouw (f. 1967) arkitekt og meðstofnandi One Architecture.
b. Eftir réttarhöldin seldi Edith Fansworth-húsið ungum breskum milljónamæringi Peter Palumbo sem hafði beðið Mies um að hanna skrifstofubyggingu í City of London, verkefni sem myndi samt ekki vera byggt fyrr en eftir lát arkitektsins. Mörg ár myndu líða þar til hægt yrði að fá leigusamning fyrir lóðina. Þegar stundin rann upp og Palumbo sótti um byggingarleyfi var tillögunni vísað frá af áköfum verndurum sögunnar, í raun algjör mótsögn, Mies var þegar látinn og heyrði sögunni til.
c. Við hönnun viðbyggingarinnar við Bollen-húsið, endurtúlkaði arkitekt One Architecture Farnsworth-húsið.
d+e. Bollen- húsið (1999).
f. Að næturlagi hlýst næði þegar dregið er fyrir gluggaframhliðina með litaglöðum gluggatjöldum, hönnuðum af listamanninum Berend Strik en efnið er framleitt í klæðaverksmiðjum Bollen-fjölskyldunnar í Asíu.
g+h+i. Við gerð viðbyggingarinnar, notfærði arkitektinn sér einstök atriði úr húsagerð Mies: opið skipulag, frágang við þakbrúnina, gerði eftirlíkingu af krómaðri krosslagaðri súlu úr þýska skálanum á heimssýningunni í Barcelona (1929) og hækkaði viðbygginguna jafnvel upp um hálfann metra frá jörðu.